Úrvalsvín frá Suður-Týról

Suður-Týról er ítalskt hérað við rætur Alpafjalla. Það tilheyrði Ungversk-Austurríska keisaradæminu en fór undir ítölsk yfirráð við lok fyrri heimsstyrjaldar.  Víngerð á sér langa sögu í Suður-Týról, allt frá því fyrir tima Rómaveldis.  Meirihluti framleiðslunnar eru hvítvín úr þrúgunum Pinot Grigio, Gewürztraminer, Pinot bianco og Chardonnay, og fleiri hvítar þrúgur er einnig að finna á þessum slóðum en í minna magni. Helstu rauðvínsþrúgur eru Lagrein og Schiava, en þessar þrúgur voru lengi vel aðeins ræktaðar á þessum slóðum, þó að Lagrein eigi nú sívaxandi vinsælda að fagna í Ástralíu.  Fleiri rauðar þrúgur er einnig að finna í Suður-Týról, m.a. Pinot nero, Merlot, Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc.

Það er alltaf spennandi að prófa nýjar þrúgur og nú bætist enn ein í safnið – Lagrein.

Vín dagsins

Vín dagsins er rauðvín úr smiðju Cantina Bolzano, sem staðsett er í samnefndum dal, sem stundum er líka kallaður Gries.  Víngerðin er ung (frá 2001) en er engu að síður að senda frá sér mjög vönduð og flott vín, líkt og vín dagsins.  Vínið er gert úr þrúgunni Lagrein og er látið liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri eik áður en það er svo sett á flöskur.

Bozen Lagrein Riserva Gries Prestige line 2015Bozen Lagrein Riserva Gries Prestige line 2015 er djúprautt á lit, unglegt með bláma í rödinni, tæp miðlungs dýpt, aðeins skýjað, þéttir taumar.  Í nefinu er góður ilmur af lakkrís, karamellum, leðri, kirsuberjum og vanillu.  Í munni eru mjúk tannín, góð fylling og fínasta jafnvægi.  Rjómakaramellur, lakkrís og krækiber í þéttu og góðu eftirbragðinu. Mjög gott matarvín sem hæfir öllum góðum steikum. Aðeins í dýrari kantinum (5.499 krónur) en vel þess virði að prófa. 91 stig

Vinir á Facebook