Allt komið í lag?

Það hefur verið eitthvað ólag á síðunni undanfarna daga og innihald hennar ekki birst.  Ég var orðinn úrkula vonar um að fá þetta aftur í gang þegar allt var skyndilega komið í lag í morgun!  Vonandi hefur þetta bara verið einhvert tæknilegt vandamál.  Því er ekki annað í stöðunni en að taka til óspilltra málanna og fara að birta þá víndóma sem hafa safnast upp að undanförnu.

Vín dagsins

Vín dagsins er óvenjulegt í marga staði. Það kemur frá Chile en maður gæti alveg trúað að það kæmi frá Rónardalnum í Frakklandi.  Framleiðandinn Morandé er íslenskum vínáhugamönnum vel kunnur, því í Vínbúðunum er að finna hefðbundin Chileönsk vín frá Morandé – allt frá dæmigerðu Carmenére til hins magnaða House of Morandé (sem er reyndar blandað í frönskum stíl).  Morandé er líka þáttakandi í samstarfsverkefni sem kallast Belén-hópurinn, þar sem víngerðarmenn frá vínhúsunum Morandé, Vistamar, Mancura, Zorzal og Fray Leon taka höndum saman og búa til vín í nýjum og stundum frumlegum stíl.

Alls eru 10 vín í þessu samstarfsverkefni – allt rauðvín en í sumum þeirra er einnig að finna þrúgur sem við þekkjum annars aðeins úr hvítvínum, og það á einnig við um vín dagsins.  Það kallast Mediterraneo og er í nokkuð klassískum suður-frönskum stíl, nema að í því eru tvær þrúgur – Marsanne og Roussanne – sem við venjulega sjáum bara í hvítvínum. Að auki er þar að finna klassísku Rónarþrúgurnar Grenache, Syrah og Carignan.  Útkoman er vín sem gæti blekkt margan vínáhugamanninn að þar væri komið vín frá Suður-Rhone, jafnvel Chateauneuf-du-Pape.  Vínið  var látið liggja í 14 mánuði á tunnum úr franskri eik áður en það var svo sett á flöskur.

Morandé Adventure Mediterraneo 2013 er dökk-kirsuberjarautt á lit, með ágæta dýpt og byrjandi þroska.  Í nefinu finnum við kirsuberjasultu, timjan, leður, dökkt súkkulaði, appelsínubörk og krydd.  Í munni eru stinn tannin, góð sýra og fínn ávöxtur. Kirsuber, bláber, kakó, mild eik í góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Klassískur Rónarstíll. Fyrir góðar steikur, villibráð og osta. Ætti að halda sér vel í 5-10 ár til viðbótar. Frábær kaup (2.999 kr). 92 stig.

Hvað segja hinir?

Robert Parker gefur þessu víni 93 stig.

Þorri Hringsson gefur víninu 4,5 stjörnur.

Vinir á Facebook