Ég hef lengi verið veikur fyrir Sauvignon Blanc-þrúgunni, sem gefur af sér frískleg og matarvæn vín. Líkt og aðrar þrúgur er misjafnt hvar hún nýtur sín best, en einna best virðist hún kunna við sig á Nýja-Sjálandi og í Frakklandi, einkum í Loire-dalnum. Ný-Sjálensku vínin eru yfirleitt kryddaðri og með meiri graskeim en vínin frá Loire, sem eru aðeins fágaðri (að mínu mati). Aðstæður hafa ekki verið þær bestu í Loire undanfarin ár (2011-2014) en nú eru að detta inn í vínbúðirnar 2015 og 2016 árgangarnir, sem eru mun betri og því aftur kominn tími á að skella sér á Sancerre eða Pouilly-Fumé.
Þegar leitað er á vef vínbúðanna að Sancerre koma upp 5 vín en aðeins 1 Pouilly-Fumé. Hins vegar koma upp 14 Ný-Sjálensk vín úr Sauvignon Blanc og flest þeirra nokkuð ódýrari en þau frönsku, sem flest eru rétt yfir 3.000 krónum.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Sancerre, frá framleiðanda að nafni Pascal Jolivet. Í vor fjallaði ég um annað Sauvignon Blanc frá sama framleiðanda, en það kallast Attitude. Það er með aðeins meiri sýru og ekki jafn fágað og vín dagsins, en engu að síður góð kaup í því fyrir þá sem deila aðdáun minni á þessari þrúgu.
Pascal Jolivet Sancerre 2016 er fölgult á lit, unglegt að sjá. Í nefinu er frísklegur keimur af lime, timjan og steinefnum. Í munni er frískleg sýra, góð fylling og fínn ávöxtur. Lime og epli í góðu eftirbragðinu. Fer einstaklega vel með fiski og salati. Góð kaup (3.498 kr).