Campo Viejo Rioja Reserva 2012

Það er allt morandi í góðum vínum frá Spáni um þessar mundir (og reyndar undanfarin ár).  Með örfáum undantekningum hafa nær allir árgangar á þessari öld verið góðir í Rioja – undantekningarnar eru 2002, 2006 og 2007.  Reyndar þykja 2013 og 2014 aðeins vera í meðallagi en inn á milli á þó að vera hægt að gera góð kaup í vínum úr þessum árgöngum.  Vín dagsins er frá árinu 2012, frá framleiðanda sem er Íslendingum að góðu kunnu.  Vinið er gert úr þrúgunum Tempranillo (85%), Graciano (19%) og Mazuelo (5%) og hefur fengið að liggja í 18 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik, og svo aðra 18 mánuði á flöskum áður en það fer í sölu, allt samkvæmt reglum um Rioja Reserva.
Campo Viejo Rioja Reserva 2012 er kirsuberjarautt á lit með byrjandi þroska.  Í nefinu finnur maður þurrkuð kirsuber, vanillu, leður og smá krydd.  Í munni eru góð tannín og góð sýra, fínn ávöxtur.  Leður, eik, rauð ber og smá appelsínubörkur ráðandi í góðu eftirbragðinu.  Klassískt Rioja.  Góð kaup (2.299 kr). 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook