Greco di Tufo

Það er alltaf spennandi að prófa vín frá nýjum svæðum og kynnast nýjum þrúgum.  Um daginn fjallaði ég um vín frá víngerðinni Nativ, sem framleiðir eingöngu vín úr ítölskum þrúgum. Vín dagsins kemur frá sömu víngerð, en það kemur hins vegar frá héraðinu Campaniu í suðurhluta Ítalíu.  Í þessu héraði eru merkar fornminjar á borð við Pompei og Herculeanum, og undan ströndum héraðsins er eyjan Capri.  Þrúgan Greco bianco er einkum ræktuð í Campaniu og Calabriu.  Vínin frá Campaniu kallast Greco di Tufo, en Calabriu-vínin kallast Greco di bianco.
Nativ Greco di Tufo 2016 er strágult á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður sítrusávexti, melónur og kíví ásamt smá steinefnakeim.  Í munni er vínið frísklegt með góða fyllingu og fínan ávöxt, þar sem límónur og kíví eru ráðandi í eftirbragðinu.  Framleiðslan er ekki nema rúmlega 2.900 kassar á ári.  Ekki enn komið í vínbúðirnar en verður væntanlega selt rétt undir 3.000 krónum og á því verði eru þetta ágæt kaup.  88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook