Kominn tími á Gran Reserva

Undanfarin ár höfum við fengið að njóta hinna stórgóðu 2010 og 2011-árganga frá Spáni – fyrst Crianza, svo Reserva og nú eru Gran Reserva-vínin að detta inn og hér er hægt að gera mjög góð kaup í mörgum vínum.
Vín dagsins er frá Campo Viejo í Rioja, gert úr þrúgunum Tempranillo (85%), Graciano (10%) og Mazuelo (5%).  Líkt og lög gera ráð fyrir hefur það fengið að liggja að lágmarki 2 ár í eikartunnum (frönsk og amerísk eik) og minnst 2 ár í flöskum (þó lágmark 5 ár alls) áður en vínið er sett í sölu.
Campo Viejo Rioja Gran Reserva 2011 er kirsuberjarautt á lit og sýnir byrjandi þroska.  Í nefinu er leður, kirsuber, lakkrís, pipar og vanilla.  Í munni eru góð tannín, fín sýra og þokkalegur ávöxtur. Tóbak, eik, sveskjur, kakó og plómur í ágætu eftirbragðinu. Drekkist á næstu 5-7 árum. Mjög góð kaup (2. 799 kr.).  89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook