Léttur og skemmtilegur Ítali

Vín dagsins er nokkuð sérstakt að því leyti að við gerð þess er notast við forna aðferð sem var að mestu aflögð.  Stærstur hluti þrúganna (Sangiovese) sem fara í vínið er tíndur í september og látinn gerjast í stáltönkum.  Um þriðjungur þrúganna er hins vegar látinn vera áfram á vínviðnum þar til þær eru aðeins farnar að þorna, en þá eru þær tíndar og bætt út í vínið sem fær svo að gerjast á ný.  Hluti vínsins er svo látinn liggja í notuðum eikartunnum áður en endanleg blöndun fer svo fram.  Útkoman er vín með góðu berjabragði og smá sultu.
Castello Banfi Stilnovo Governo all’Uso Toscana IGT 2014 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá.  Í nefinu eru kirsuber, plómur, krydd og vottur af eik.  Í munni eru mjúk tannín, hófleg sýra og fínn ávöxtur. Rauð berjasulta og smá súkkulaði ráðandi í ágætu eftirbragðinu.  Góð kaup (2.290 kr). 88 stig.  Athugið að í hillum vínbúðanna er nú kominn 2015-árgangurinn, en sá þykir ívið betri en 2014 í Toscana (sem var þó ágætur).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook