Einnar ekru Sauvignon Blanc

Við þekkjum vel vínin frá Cono Sur í Chile.  Líkt og flest vín þá koma þrúgurnar yfirleitt af nokkrum mismunandi vínekrum, þar sem þrúgurnar eru sérvaldar í vínin eftir því í hvaða gæðaflokk þau eiga að vera.  Sumir framleiðendur, hvort sem það er í Chile eða annars staðar, búa líka til vín þar sem þrúgurnar koma allar af sömu vínekrunni.  Það getur þýtt að í góðum árum sé vínið einstaklega gott en kannski ekki jafn gott í verra árferði og þá kemur fyrir að þrúgurnar séu settar í önnur „minni“ vín.  Það er því oftast ákveðinn gæðastimpill sem fylgir „einnar ekru“ vínum.
Vín dagsins er gert úr þrúgum sem koma allar af Loma Roja vínekrunni í Casablanca-dalnum í Chile.  Þetta mun vera eitt kaldasta vínræktarsvæðið í Chile, þar sem köld morgunþokan leggst yfir vínekrurnar á hverjum degi og hægir þannig á vaxtarhraðanum.
Cono Sur Block 10 Lom Roja Sauvignon Blanc 2015 er fölgult á lit með grænleitri slikju.  Í nefinu eru sólberjalauf (kattahland), hvítur pipar, kiwi, ferskjur og greipaldin.  Í munni er vínið þurrt og sýran nokkuð ágeng.  Miðlungsfylling með nokkuð stuttu eftirbragði þar sem ferskjurnar og greipaldin ráða ferðinni.  Ágætur sumardrykkur sem hentar vel með melónum, salati og léttum fiskréttum. Ágæt kaup (2.590 kr). 87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook