Kjarakaup frá Valdepenas

Það er eflaust leitun að íslenskum vínáhugamanni sem ekki þekkir Rioja-hérað á Spáni og eflaust margir sem kannast líka við Ribera del Duero og Penedes. En það eru kannski ekki allir sem þekkja héraðið Valdepeñas.  Valdepeñas er staðsett á miðjum Spáni, og er nánast umlukið af La Mancha-héraðinu.  Víngerð á sér langa sögu í Valdepeñas og héraðið var lengi þekkt fyrir sérstakan vínstíl sem nefndist aloque eða clarete, þar sem vínin voru gerð úr blöndu rauðra og hvítra þrúga.  Bestu vínekrurnar í Valdepeñas eru Los Llanos og Las Aberturas.
Vín dagsins er einmitt frá Los Llanos-vínekrunni.  Vínhúsið Bodegas Los Llanos er í eigu Garcia Carrion-samsteypunnar, sem á fjölda vínhúsa á Spáni og framleiðir auk þess ávaxtasafa undir nafninu Don Simon sem flestir þekkja frá ferðalögum til Spánar (þeir fást kannski líka hérlendis?).
Pata Negra Valdepeñas Gran Reserva 2008 er múrsteinsrautt og komið með smá þroska.  Í nefinu finnur maður þroskaða ávexti, plómur og kaffi, ásamt mildum eikartónum.  Í munni eru tannínin farin að mýkjast nokkuð og vínið orðið mjúkt.  Í munni finnur maður rauð ber, plómur, kaffi og smá súkkulaði. Hentar vel með lambi og grillmat. Líklega eitt ódýrasta Gran Reserva-vínið í vínbúðunum en alls ekki það sísta.  Ágæt kaup (1.999 kr).  87 stig.  Fær að meðaltali 3,6 stjörnur á Vivino.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook