Góð kaup frá Ribera del Duero

Moro-fjölskyldan í Ribera del Duero hefur framleitt í heila öld og nú er þriðja kynslóð víngerðarmanna sem sér um framleiðsluna.  Árið 1998 ákvað fjölskyldan að hætta að flokka vín sín sem crianza, reserva og gran reserva, sem færði þeim aukið frelsi í víngerðinni og þó að tæknilega séð flokkist vínin sem lægra sett í virðingarstiganum þá hafa gæðin hins vegar oft aukist hjá þeim sem hafa fetað slíka braut.  Vínin frá Emilio Moro hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og í nokkur skipti ratað inn á topp 100-lista Wine Spectator og fleiri víntímarita.
Vín dagsins telst vera litla vínið frá Emilio Moro, en þetta er alls ekkert lítið vín.  Þetta er hreint Tempranillo-vín (þrúgan nefnist reyndar Tinto Fino í Ribera del Duero) og er látið liggja í 4 mánuði í tunnum úr franskri eik áður en það er sett á flöskur.  Þrúgurnar koma af yngsta vínviðnum á vínekrunni sem ber nafnið Finca Resalso – þessi vínviður er um 5-12 ára gamall, en elsti vínviðurinn er frá árinu 1932.
Emilio Moro Finca Resalso 2015 er kirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá, með ágæta dýpt.  Í nefinu finnur maður þroskuð kirsuber og brómber, lakkrís, krydd og smá vanillu.  Í munni eru frískleg tannín, ágæt sýra og góður ávöxtur. Mildir eikartónar, súkkulaði, kirsuber, kaffi og ferskar kryddjurtir í góðu eftirbragðinu. Vínið er aðeins hrjúft í munni og hefur gott af umhellingu.  Mjög góð kaup (2.398 kr). Gott matarvín – grillað naut og lamb. 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook