Góður Cabernet frá Chile

Vínin frá Concha y Toro hafa löngum verið vinsæl hér á landi enda gæðavín.  Vínin í Marques de Casa Concha-línunni eru að mínu mati með betri kaupum þegar Chile-vín eru annars vegar – þau kosta öll 2.999 krónur og hafa jafnan verið að fá um 89-93 stig hjá flestum víngagnrýnendum.  Af rauðvínunum þremur sem fást hér á landi hefur Cabernet Sauvignon verið langvinsælast en að mínu mati er maður þó að gera bestu kaupin í Pinot Noir (fyrir þá sem vilja Nýja-heims pinot).
Eldhúsið mitt er loksins farið að verða nothæft aftur og ég get farið að elda almennilegan mat á ný, og í tilefni þess eldaði ég lambaprime í gærkvöldi og langaði í eitthvað gott með því.  Ég átti eina Cabernet Sauvignon úr MdCC-línunni og reyndi að haga eldun lambsins þannig að það passaði við vínið.  Útkoman varð ágæt þó svo að hráefnið hefði líklega mátt vera aðeins betra.
Concha y Toro Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon 2015 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt.  Í nefinu finnur maður plómur, lakkrís, pipar og eik.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og ávöxtur. Bláber, krækiber, súkkulaðitónar og krydd (mynta) í eftirbragðinu. Ekki jafn öflugt og 2013-árgangurinn en engu að síður mjög gott vín.  Góð kaup (2.999 kr). 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook