Fyrsta flokks Malbec

Malbec-vínin frá Argentínu hafa fyrir löngu sýnt fram á hversu matarvæn þau eru, einkum ef góð steik er á matseðlinum.  Einn helsti frumkvöðull víngerðar í Argentínu er Nicolas Catena, en Nicola afi hans hóf að rækta Malbec árið 1902. Nicolas Catena lærði hagfræði við Berkeley háskóla, en komst þar einnig í kynni við byltinguna sem þá var að eiga sér stað í víngerð í Kaliforníu.  Þegar hann sneri aftur heim til Argentínu sannfærði hann afa sinn og föður um að fara einnig að rækta Chardonnay og Cabernet Sauvignon, og yfirgefa gamla ítalska stílinn sem þeir höfðu fylgt og taka í staðinn upp fransk-amerískan stíl líkt og í Kaliforníu. Þeir flýttu sér þó hægt og það tók meira en áratug af þróunarvinnu áður en afraksturinn leit dagsins ljós. 1990-árgangurinn var sá fyrsti af Catena Zapata Estiva Reservada (Cabernet með smá Malbec). Hann hafði stefnumarkandi áhrif á argentíska víngerð og er enn í dag eitt eftirsóttasta vínið frá Argentínu.
Catena Alta línan kom fyrst fram árið 1994 og nú eru 3 vín í Alta-línunni: Malbec, Cabernet Sauvignon og Chardonnay.  Rauðvínin liggja 18-24 mánuði í frönskum eikartunnum áður en þau eru sett á flöskur, en hvítvínin liggja í rúmt ár á tunnum úr franskri eik, þar sem hluti tunnanna hefur verið notaður 1-2 sinnum áður. Vínin fara almennt að njóta sín þegar þau eru orðin minnst 3 ára gömul og endast yfirleitt í 10-20 ár áður en þau fara að dala. Þrúgurnar í vín dagsins, Malbec, koma frá 5 vínekrum í Uco-dal og Luján de Cuyo.  Vínekrurnar liggja mjög hátt yfir sjávarmáli (sú hæsta er í 1450 m hæð) og terroir-áhrifin hafa þar mikið að segja.
Catena Alta Malbec 2013 er dökkrúbínrautt á lit, með fallega dýpt, unglegt.  Í nefinu finnur maður skógarber, fjólur, sólber, pipar og franska eik.  Í munni eru góð tannín og fín sýra, mjög gott jafnvægi og flottur ávöxtur.  Kryddað eftirbragð með sólberja- og tóbakskeim.  Frábært matarvín (nautasteik og villibráð), mjög góð kaup (4.498 kr).  93 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook