Þetta þurfið þið að prófa

Jæja, það hefur verið heldur rólegt hérna á síðunni að undanförnu og lítið um skrif þar sem ég hef verið önnum kafinn við að taka eldhúsið mitt í gegn.  Það sér nú loks fyrir endann á því og vonandi hægt að hefja vínprófanir á ný.  Ég náði þó að gefa mér tíma til að líta á hvaða nýjungar hefðu borist í hillur vínbúðanna nú um mánaðamótin og þar kennir ýmissa grasa.  Ég ætla þó sérstaklega að benda ykkur á vín dagsins, sem kemur frá Beronia á Spáni.  Þetta vín er nefnilega ekki framleitt á hverju ári, heldur aðeins þegar árferði hefur verið gott og gæðin nægilega mikil.  Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo og Graciano ásamt nokkrum dropum af Mazuelo.  Vínið er látið þroskast í 2 ár á tunnum úr amerískri og franskri eik og svo fær það að þroskast önnur 2 ár að í flöskum að lágmarki áður en það fer í sölu.
Beronia Rioja Selección de 198 Barricas Reserva 2009 er dökkkirsuberjarautt á lit með góða dýpt og smá þroska.  Í nefinu finnur maður tóbak, súkkulaði, þurrkaða ávexti, lakkrís og plómur.  Í munni eru fín tannín, góð sýra og fínasta jafnvægi, góður ávöxtur.  Kirsuber, balsamico, súkkulaði og krydd í góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel.  Flott matarvín fyrir stórar steikur en einnig fyrir harða osta.  Mjög góð kaup (3.399 kr). 90 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook