Fíaskó!

Lesendur muna væntanlega eftir vínflöskum í strákörfum og tengja það væntanlega við ódýrt ítalskt rauðvín.  Færri vita þó líklega hvað þessar flöskur kallast og því síður að þeir þekki söguna á bak við þær.
Flöskur þessar kallast fiasco (í fleirtölu eru það fiaschi, borið fram fíaski) og þeirra er fyrst getið í Decameron, sem er smásagnasafn frá miðri 14. öld. Flöskurnar voru til í mismunandi stærðum og nefndust quarto („fjórðungur“, 5.7 lítrar að rúmmáli), mezzo quarto („hálfur fjórðungur“, 2.28 lítrar), og metadella („lítill helmingur“, 1.4 lítrar). Flöskurnar voru vafðar í strákörfu til að verja þær í flutningi.
Í upphafi 20. aldararinnar munu um eitt þúsund glerblásarar og 30.000 vefarar unnið við gerð fiaschi, en vinsældirnar dvínuðu hratt um miðja öldina þegar fleiri framleiðendur tóku að færa framleiðslu sína yfir í flöskur í Bordeaux-stíl.  Árið 1965 voru sett lög þar sem tekið er fram að aðeins vín sem uppfylla DOC-kröfur megi setja í fiaschi, og þannig reynt að hefa þessar flöskur aftur til fyrri virðingar.  Í dag eru þessar flöskur þó að mestu hafðar til skrauts eða notaðar sem kertastjakar á veitingahúsum, og lítið um vín á svona flöskum.  Vinir okkar í Castello Banfi framleiða þó vín sem sett er á fiaschi – Bell’Agio Chianti DOCG sem kemur frá Toscana og er gert úr þrúgunum Sangiovese (90%) og hin 10 prósentin eru Canaiolo Nero, Malvasia og Trebbiano.  Vínið er látið gerjast í stáltönkum og síðan geymt í 3 mánuði á flöskum áður en það er sett í sölu.
Banfi Bell’Agio Chianti DOCG 2015 er rúbínrautt á lit með fjólubláum tónum, unglegt.  Í nefinu eru fjólur ráðandi, en einnig má greina rauð ber og ferskar kryddjurtir.  Í munni er vínið ávaxtaríkt en það fer lítið fyrir tannínum og fyllingin er ekki mikil.  Hentar líklega best með pasta, ostum og kálfakjöti eða af hverju ekki að drekka það aðeins kælt á heitum sumardegi (hvenær sem þeir koma?). 85 stig. (2.198 kr.)

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook