Frábær kaup!

Síðastliðið vor prófaði ég vín frá Andreza í Portúgal og vöktu þau almenna lukku, bæða rauðvínið og hvítvínið sem ég prófaði.  Reyndar er það víst svo að vínhúsið heitir Lua Cheia em Vinhas Velas og þrátt fyrir ungan aldur (stofnað 2009) þá hefur það vaxið hratt og er nú með starfsemi í Douro, Dao og Alentejo. Nú er ég ekki sleipur í portúgölsku en samkvæmt Google Translate þá myndi íslensk þýðing á nafni vínhússins vera „Fullt tungl í vínviðarkertum“ (hljómar örugglega betur á portúgölsku).  Andreza-vínin hafa verið að fá flottar einkunnir hjá öðrum vínskríbentum – á vef Wine Enthusiast má finna umsagnir um 24 vín og meðalstigafjöldinn er rétt um 90 stig!  Nú eru komin í hillur vínbúðanna 2016-árgangurinn af Reserva-hvítvíninu og 2014-árgangurinn af Reserva-rauðvíninu, sem er vín dagsins, en það fær einmitt 90 stig hjá Wine Enthusiast.
Andreza Reserva Douro 2014 er gert úr þrúgunum Touriga Franca, Touriga Nacional og Tinta Roriz.  Það er kirsuberjarautt, unglegt með fallega tauma og ágæta dýpt.  Í nefi finnur maður lakkrís, pipar, sólber og vanillu.  Í munni eru mjúk tannín, hrjúf sýra, góður ávöxtur, plómur og hvítur pipar í þéttu eftirbragðinu. Hentar vel með nautasteikinni (tekur ekki athyglina frá steikinni). Frábær kaup (2.198 kr). 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook