Góður Beronia

Flestir þekkja líklega nafnið Beronia, en vínin frá þeim hafa lengi verið í hillum vínbúðanna – yfirleitt traust og áreiðanleg kaup í þessum vínum sem eru á góðu verði. Víngerðin á sér þó ekki mjög langa sögu, en fyrirtækið hóf starfsemi árið 1973.  Það hefur aðsetur í Rioja Alta (Rioja skiptist í Rioja Alta, Rioja Alavesa og Rioja Baja), þar sem það hefur um 900 hektara af vínekrum, þar af eru um 50 hektarar með vínvið sem er yfir 60 ára gamall.  Gamall vínviður gefur oft af sér öflug og góð vín, og vín dagsins kemur einmitt af gömlum vínvið (Vinas Viejas þýðir gamall vínviður).
Beronia Vinas Viejas Tempranillo Rioja 2012 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með ágæta dýpt og fallega tauma. Í nefinu finnur maður plómur, sólber, lakkrís, ameríska eik og krydd. Í munni eru sæmileg tannín, ágæt sýra, góð fylling og vínið er í ágætu jafnvægi.  Í eftirbragðinu finnur maður vott af kakó, ristuðum möndlum og smá myntu. Hentar vel með steikum, grilluðu kjöti, hráskinku og tapas.  Góð kaup (2.798 kr). 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook