Um vín ársins

Það fór óvenjulítið fyrir umræðunni um vín ársins hjá Wine Spectator þetta árið, og kannski ekki að ástæðulausu.  Það er að verða fastur liður að amerískt vín verði fyrir valinu þrátt fyrir að manni fyndist önnur vín frekar eiga þetta skilið.  Eftir því sem ég kemst næst þá eru nokkur aðtriði höfð til hliðsjónar við val á víni ársins – einkunn, verð, aðgengi (framleitt magn) og svokallaður x-þáttur.  Síðastnefnda atriðið hlýtur að vega þungt, því þegar topp 10-listinn er skoðaður þá eru á honum 5 amerísk vín og 5 evrópsk (4 frönsk og 1 ítalskt).  Evrópsku vínin fá öll sömu eða hærri einkunn en vín ársins. Evrópsku vínin eru öll ódýrari en vín ársins. Fjögur af fimm evrópsku vínanna eru framleidd í meira magni en vín ársins.  Sömu sögu er að segja af fleiri vínum neðar á listnaum – sama eða hærri einkunn, betra verð, meira magn.  X-þátturinn vegur greinilega þungt…
En hvað um það?  Vín ársins 2017 hjá Wine Spectator er Duckhorn Merlot Napa Valley Three Palms Vineyard 2014, með eftirfarandi umsögn:

„A powerful red, with concentrated flavors of red plum, cherry and boysenberry that are layered with plenty of rich spice and mineral accents. Touches of slate and cardamom make for a complex finish. Drink now through 2023. 3,170 cases made.“

Þetta vín er ekki til í vínbúðunum frekar en önnur vín á topp 10-listanum, en hins vegar er til annað merlot frá sama framleiðanda (athugið að þetta er ekki sama vín og ekki sami árgangur) sem hefur líka fengið ágætis umsagnir.  Það kostar litlar 5.495 krónur og fæst ekki í öllum vínbúðum en það er vel freistandi að prófa.
Önnur vín á listanum sem gætu átt eftir að rata í hillur vínbúðanna eru Marques de Cacerers Rioja Reserva 2012 (núna er 2009-árgangurinn í hillunum), Kendall-Jackson Chardonnay California Vintner’s Reserve 2015 (núna er 2014 í hillum vínbúðanna), Trimbach Pinot Gris Alsace Réserve Personnelle 2015 (2013 í hillunum), Bodegas Emilio Moro Tempranillo Ribera del Duero 2015 (2014 í vínbúðunum), Concha y Toro Cabernet Sauvignon Puente Alto Don Melchor 2014 (2006 í vínbúðunum) og Il Poggione Rosso di Montalcino 2015 (2012 í vínbúðunum).
Hins vegar eru 2 vín fáanleg í vínbúðunm
Matua Sauvignon Blanc Marlborough 2016 (40.sæti – 90 stig) er núna til í vínbúðunum (2.299 krónur) og það sem meira er – það er líka til sem kassavín! (4.290 kr). Kassavínið fæst á höfuðborgarsvæðinu en flaskan um nánast allt land!
Bodegas Palacios Remondo Rioja La Vendimia 2015 (47. sæti – 90 stig) er til í vínbúðunum en er aðeins selt í gjafaöskju – 3 flöskur og karafla (9.800 kr).
Svo eru fleiri víngagnrýnendur sem gefa út sinn topp 100-lista og ég ætla að kafa ofan í þá á næstu dögum…
 

Vinir á Facebook