Nýtt húsvín

Vínhúsið 14 Hands í Washington dregur nafn sitt af villtum smáhestum sem voru víst aðeins 14 hendur á hæð (14 handarbreiddir) og voru eitt sinn algeng sjón í fylkinu, einkum í Columbia Valley þar sem vínhúsið hefur starfsemi sína.
Ég hafði séð víndóma um vínin frá 14 Hands og var að vonast til að vínin myndu einhvern tíma rata í hillur vínbúðanna og varð að vonum glaður þegar ég sá eitt vínið þar um daginn.  Það er varla hægt að segja að vínið hafi komið mér á óvart, því ég átti von á góðu og skemmtilegu víni og það stóðst allar mínar væntingar.  Þegar kom svo að því að velja nýtt húsvín þá var valið auðvelt.
14 Hands Hot to Trot Red Columbia Valley 2013 er blandað úr Merlot og Syrah, ásamt örlitlu af Petit Verdot og Petite Syrah. Vínið er að hluta látið þroskast í stáltönkum og að hluta í tunnnum úr amerískri og franskri eik. Það er kirsuberjarautt á lit, unglegt með fallega tauma í glasinu.  Í nefinu eru plómur, kirsuber og vanilla og í munni eru þægileg tannín, góð sýra og ávöxtur, með plómur, lakkrís, krydd og smá súkkulaði í eftirbragðinu.  Góð kaup (2.299 kr). Hentar vel með grilluðu svínakjöti, ostum og bragðmiklum pastaréttum. 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

 

Vinir á Facebook