Frábært villibráðarvín

Haustið er tíminn fyrir villibráð – hreindýr, endur og gæsir – og með góðri villibráð er gott rauðvín ómissandi.  Villibráð er almennt mjög bragðmikið kjöt og kallar á öflugt vín – Syrah, Cabernet Sauvignon eða Malbec.  Sem betur fer er nóg til af góðum villibráðarvínum í vínbúðunum, og vín dagsins er í hópi þeirra bestu.
Við þekkjum flest nafn E. Guigal og höfum flest prófað hið ágæta Cotes du Rhone.  Vín dagsins má kannski kalla stóra bróður (einn af mörgum) en það kemur af ekrum Guigal í héraðinu Côte-Rôtie, sem er nyrsta vínræktarsvæði í norðurhluta Rónardals.  Nafnið Côte-Rôtie má þýða sem „ristaða hlíðin“, en hún skiptist svo aftur í tvö svæði – Côte Blonde („ljósa hlíðin“) og Côte Brune („dökka hlíðin“), sem draga nöfn sín af jarðveginum (ljós og dökkur vegna mismunandi efnasamsetningar).  Vínin frá þessum svæðum er líka mismunandi – vín frá Côte Blonde eru oft í góðu jafnvægi, fáguð og yfirleitt drukkin ung, en vín frá Côte Brune eru tannísk, með mikla fyllingu og þurfa oft að þroskast í nokkur ár áður en þau fara að njóta sín að fullu.  Flest vín frá Côte-Rôtie eru blöndur af báðum þessum svæðum og það á við um vín dagsins.  Það er að mestu leyti gert úr Syrah (96%) en örlitlu Viognier (4%) hefur verið bætt út í.  Vínið er látið liggja í minnst 3 á eikartunnum (helmingurinn nýjar tunnur).  Rauðvínin frá Côte-Rôtie eru gerð úr Syrah en mega innihalda allt að 20% Vigonier.  Viognier er græn þrúga, en fátítt er að heimilts sé að nota grænar þrúgur í rauðvín (það er þó leyft í Côte-Rôtie og í Chateauneuf-du-Pape).
E. Guigal Côte-Rôtie „Brune et Blonde de Guigal“ 2011 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og sýnir smá þroska.  Í nefinu finnur maður rauð ber, skógarbotn, leður, tóbak, vanilla og franska eik.  Í munni eru góð tannín, góð sýra, flottur ávöxtur, plómur og kaffi í löngu og góðu eftirbragð. Frábært vín (6.799 kr) sem hentar vel með villibráð og öðrum stórum steikum. Þolir vel að geymast allt að 10 ár til viðbótar. 93 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook