Stórkostlegt Chablis

Að undanförnu hef ég fjallað um tvö vín frá Chablis – eitt Petit Chablis og ett Premier Cru (bæði frá La Chablisienne).  Efst í gæðaflokkun Chablis er hins vegar Grand Cru, og þekkust þeirra eru líklega vínin sem kennd eru við Les Clos, sem þýðir „lokað af“ eða eitthvað í þá átt, og er þar líklega átt við vegg eða hleðslu sem munkar hlóðu utan um vínekrurnar á miðöldum.  Veggurinn er löngu horfinn, sem og vínviðurinn frá miðöldum, því hann varð phylloxera rótarlúsinni að bráð á 19. öld.  Upp úr miðri 20. öld fór stjarna Les Clos aftur að rísa og nú þykja vínin þaðan vera ein hin bestu frá Chablis.
Vínhús Joseph Drouhin var stofnað árið 1880 og er nú á meðal þeirra stærstu í Búrgúndí, með vínekrur í flestum héruðum Búrgúndí.
Joseph Drouhin Chablis Les Clos Grand Cru 2015 er strágullið og fallegt í glasi, með langa tauma.  Í nefinu eru gul epli, perur, fjólur, sítrónur og hunang, flókin og seiðandi lykt.  Í munni er vínið í mjög góðu jafnvægi, smjörkennt með gulum eplum, perum, steinefnum og sítrusberki í löngu og þéttu eftirbragði. Frábært vín sem á eftir að batna enn frekar með 3-5 ára geymslu. Kannski finnst mörgum það vera í dýrari kantinum þegar hvívín eru annars vegar (5.999kr). Það er þó hverrar krónu virði! 93 stig. Humar, skelfiskur, lax og skötuselur fara vel með þessu frábæra víni.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook