Frábært Viura frá Alvaro Palacios

Alvaro Palacios var valinn maður ársins hjá breska víntímaritinu Decanter árið 2015.  Stjarna hans hefur risið hærra og hærra undanfarin ár með hinum frábæru rauðvínum sem hann sendir frá sér ár hvert frá vínhúsi sínu í Priorat, og má þar nefna La Montesa og La Vendimia, ásamt Pétalos sem kemur reyndar frá héraðinu Bierzo.  Alvaro Palacios framleiðir aðeins eitt hvítvín, sem er einmitt vín dagsins, en það er selt undir merkjum fjölskylduvínhússins Remondo Palacios í Rioja. Framleiðslan er ekki stór – aðeins um 9.500 flöskur á ári og vínið er gert úr spænsku þrúgunni Viura.
Remondo Palacios Plácet Valtomelloso 2012 er strágult á lit, með smá þroska.  Í nefinu finnur maður sítrus, rauð epli, sætan kryddkeim og svei mér ef það er ekki líka vottur af kiwi til staðar.  Í munni er vínið með góða fyllingu og í fínu jafnvægi, með góða sýra og fínan ávöxt, þar sem rauð epli, perur og steinefni koma vel fram.  Vínið er þurrt og það vottar aðeins fyrir þægilegri beiskju og engifer í eftirbragðinu.  Mjög gott eitt og sér eða með fiski, ljósu fuglakjöti, ostum og pasta.
89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook