Frábært rauðvín frá Argentínu

Víngerð í Argentínu hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár og gæðin almennt aukist mjög, einkum í s.k. hvers dags vínum (það hafa lengi verið fáanleg toppvín í Argentínu en þau hafa ekki verið mörg).  Við þekkjum vel vínin úr Malbec-þrúgunni sem nýtur sín vel í Mendoza-héraði, en Cabernet Sauvignon hefur einnig dafnað vel í Mendoza.  Vín dagsins kemur einmitt frá Mendoza og er gert úr Cabernet Sauvignon.  Vínhúsið Trivento er íslendingum kunnugt, enda mörg vín frá þeim fáanleg í vínbúðunum.  Golden Reserve-línan hefur haft nokkuð háan standard og yfirleitt verið nokkuð góð kaup í þeim vínum og það gildir sko um vín dagsins.
Trivento Golden Reserve Cabernet Sauvignon 2013 er dökkkirsuberjarautt á lit og ungtlegt að sjá, ágæt dýpt, fínir taumar.  Í nefinu finnur maður kirsuber, anís, súkkulaði, nýtt leður og pipar.  Í munni eru stinn tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Kirsuber, súkkulaði og svartur pipar í ágætu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Vín fyrir naut og aðrar góðar steikur. Mjög góð kaup (2.999 kr).  90 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook