Kjarakaup í Fríhöfninni

Héraðið (og vínin frá) Vacqueyras í suðurhluta Rónarhéraðs í Frakklandi hefur löngum verið kallað litli bróðir Chateauneuf-du-Pape og Gigondas. Vínin frá Vaacqueyras ná yfirleitt ekki sömu hæðum og þau gera í hinum héruðunum, en í góðum árgöngum má yfirleitt fá mjög góð vín á góðu verði, því vínin frá stærri héruðunum eru yfirleitt nokkuð dýrari. Vínin frá Vacqueyras eru yfirleitt tilbúin til neyslu þegar þau koma í sölu, en þola að jafnaði geymslu í 5-8 ár.
Undanfarinn áratugur hefur verið vínbænum í suðurhluta Rónardals mjög hagstæður og í raun ekki komið lélegur árgangur síðan 2002.  Þó svo að 2013 hafi verið prýðisgott ár þá nær það ekki alveg sömu hæðum og árin á undan (sem voru reyndar einstaklega góð).  Þetta má þó ekki skilja sem svo að 2013-árgangurinn sé eitthvað slappur – þvert á móti er hann traustur og vínin yfirleitt mjög góð, einkum þau sem byggja mest á Syrah, en þau sem byggja mest á Grenache ná ekki alveg sömu hæðum.  Vínin í Vacqueyras byggja einmitt mest á Grenache og það á líka við um vín dagsins, sem er 80% Grenache og 20% Syrah. Þetta vín er því miður ekki í hillum vínbúðanna en aftur á móti er það í Fríhöfninni og vel þess virði að taka það með ef þið eigið leið þar um á næstunni.
Olivier Ravoire Vacqueyras 2013 er sólberjarautt á lit, unglegt að sjá og fallegt í glasi.  Í nefinu finnur maður krækiber, bláber, leður, pipar og myntu. Í munni eru mild tannín, hæfileg sýra en mætti vera aðeins meiri fylling. Krækiber og bláber, mynta og súkkulaði í eftirbragðinu.  Þetta er prýðisgott lambavín og hentar líka með öðrum grilluðum mat. Góð kaup (2.799 í Fríhöfninni) 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook