Frábært Chenin Blanc

Nýlega bárust í hillur vínbúðanna vín frá Solms Delta í Suður-Afríku.  Þetta er nokkuð ung víngerð, stofnuð árið 2001.  Saga búgarðsins er þó mun lengri og samofin þrælahaldi líkt og tíðkaðist öldum saman í Suður-Afríku.  Eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin sneri Marks Solms, prófessor í taugasálfræði, heim til Suður-Afríku og tók yfir stjórn ættaróðalsins.  Hann stofnaði sameignarfélag um reksturinn og gaf afkomendum þrælanna sem stritað höfðu kynslóðum saman á búgarðnum helmings hlut í félaginu.
Víngerðin framleiðir vín í þremur línum – Lifestyle, Heritage og Terroir.  Vínin sem fáanleg eru í vínbúðum ÁTVR eru úr Lifestyle-línunni, en í þeirri línu eru 5 mismunandi vín – rauðvín (Shiraz), rósavín (Grenache Noir), hvítvín (Chenin Blanc), rautt freyðivín (Shiraz) og hvítt freyðivín úr perum.  Rauðvínið og hvítvínið fást í vínbúðunum og vín dagsins er hvítvínið, sem gert er úr Chenin Blanc.  Chenin Blanc er aðalþrúgan í Loire-héraði í Frakklandi, en hún er líka algengasta þrúgan í Suður-Afríku þar sem hún nýtur sín vel (um 20% af allra vína í Suður-Afríku eru gerð úr Chenin Blanc).  Þetta vín er látið þroskast í 6 mánuði í stáltönkum, en lítill hluti (um 5%) er látið liggja á tunnum úr franskri eik til að gefa víninu meiri fyllingu.
Solms Delta Chenin Blanc 2016 er gullið á lit, unglegt með fallega tauma.  í nefinu finnur maður sæta angan af perum, eplum, mandarínum og sítrónum.  Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og frísklegt.  Keimur af ananas, perum, eplum og sítrónum, og ef vel er að gáð vottar aðeins fyrir frönsku eikinni.  Mjög gott sumarvín sem hentar vel með fiskréttum, ljósu fuglakjöti, salötum, pizzum eða bara eitt og sér.  Frábært kaup (1.999 kr). 89 stig. Þetta verður hvíta húsvínið mitt í sumar!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook