Chateau Corconnac 2012

Við síðustu athugun á vörulista Vínbúðanna (í morgun) var hægt að finna 141 rauðvín frá Frakklandi, þar af 55 frá Bordeaux. Í Fríhöfninni eru 62 frönsk rauðvín skráð til sölu en ég skal viðurkenna að ég nennti ekki að telja hversu mörg þeirra koma frá hverju héraði.  Hins vegar er það svo að úrvalið í Fríhöfninni er ekki það sama og í Vínbúðunum – sum vínin fást eingöngu í Fríhöfninni og þar á meðal er vín dagsins, sem kemur frá Haut-Medoc, sem er syðsti og efsti hluti Medoc-héraðsins.  Til Haut-Medoc teljast einnig þorpin Margaux, St-Julien, Pauillac, St-Estèphe, Listrac og Moulis, en þessi þorp eru skilgreind sem sjálfstæð vínræktarsvæði (appellation), og vín sem koma frá öðrum svæðum Haut-Medoc teljast einfaldlega til Haut-Medoc.  Sum vínhúsin falla undir flokkunarreglugerðana frá 1855 en ekki vín dagsins.  Það telst hins vegar vera Cru Bourgeois, sem í dag er gæðastimpill sem veittur er árlega til marks um að vínið uppfylli ákveðnar gæðakröfur.
Chateau Corconnac Haut-Medoc 2012 er múrsteinsrautt á lit, unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður franska eik, útihús, plómur, vindla og pipar.  Í munni eru hæfileg tannín og góð sýra, kryddað bragð með kirsuberjatónum, en eftirbragðið mætti vera aðeins lengra.  Vínið hentar ágætlega með grilluðu lambi og nauti.  Góð kaup (2.499 kr í Fríhöfninni). 87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook