Spænska undrið heldur áfram

Undanfarinn áratugur hefur verið spænskum víngerðarmönnum ákaflega góður, og eiginlega allt sem liðið er af 21. öldinni (með einstaka undantekningum).  Einna bestur þessara árganga hlýtur að vera 2010, sem var einstaklega góður í öllum helstu vínræktarhéruðum Spánar.  Undanfarin ár höfum við fengið að njóta fyrst Crianza-vínanna, því næsta Riserva og nú eru Gran Reserva að detta í hús (Gran Reserva verða jú að vera minnst 5 ára gömul þegar þau fara í sölu).  Baron de Ley hefur líkt og aðrar víngerðir í Rioja sent frá sér frábær vín undanfarin ár og nú er Gran Reserva 2010 komin í hillur vínbúðanna og full ástæða til að benda vínáhugamönnum á þetta frábæra vín.
Baron de Ley Rioja Gran Reserva 2010 er dökkkirsuberjarautt á lit, með smá þroska.  Í nefinu finnur maður lakkrís, leður, pipar, kakó, kirsuber og þægilegan eikarkeim.  Í munni eru góð tannín, fín sýra og góður ávöxtur.  Pipar og kirsuber í bragðinu, smá eik, tóbak og súkkulaði í löngu og þægilegu eftirbragðinu.  Smellpassar með góðri steik!  Frábært vín (3.798 kr) – 92 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook