Bobal

Það er alltaf gaman að kynnast nýjum þrúgum.  Þar til fyrir skömmu hafði ég aldrei heyrt minnst á þrúguna Bobal, og því síður vissi ég að þetta væri þriðja algengasta þrúgan á Spáni – aðeins Airén og Tempranillo eru algengari (fjöldi hektara í ræktun).  Þrúgan er algengust í héraðinu Utiel-Requena í Valencia (90% af vínviði í héraðinu) og einnig mjög algeng í öðrum héruðum Valecia, Cunca og Albacete.  Hins vegar er ekki mikið um þessa þrúgu í öðrum héruðum Spánar (kemur þó fyrir í litlu magni hér og þar), og samkvæmt Wikipediu er hana einnig að finna í Rosellón (Frakkland) og á Sardiníu.
Vín þessarar þrúgu er djúprauð á lit, ávaxtarík, tannísk, með mikla sýru en yfirleitt ekki með sama áfengismagn (11-12%) og algengt er að sjá í nútímavínum (14-15%).  Í safa Bobal-þrúgunnar er óvenjumikið af efninu Resveratrol, sem var á tímabili álitlegur kandidat við meðferð krabbameina en stóð því miður ekki undir væntingum – hins vegar getur það verið hluti af hinni s.k. frönsku þversögn, sem gengur út á að Frakkar borða mikið af mettaðri fitu en tíðni hjartasjúkdóma er þó tiltölulega lág – og vonir standa til að það geti haft jákvæð áhrif á meðferð við sykursýki.
Nýlega fékk ég í hendur vín sem gerð eru úr þessari þrúgu og umsagnir um þau munu birtast hér á næstunni.

Vinir á Facebook