Áramótauppgjör Vínsíðunnar – Vín ársins 2016

Það hefur verið venja hér á Vínsíðunni að gera upp árið og velja Vín ársins.  Ég er aðeins seinn á ferðinni að þessu sinni (hef reynt að tilkynna þetta á gamlársdag eða nýársdag) og kenni því um að ég var að vinna um áramótin.
Á árinu 2016 voru 139 vín sem fengu umsögn og einkunn á Vínsíðunni:

 • 17 Freyðivín
 • 75 Rauðvín
 • 25 Hvítvín
 • 10 Rósavín
 • 10 Kampavín
 • 2 sætvín

Vínin fengu öll einkunn á bilinu 3-5 stjörnur, en fyrir mér þýðir minna en 3 stjörnur að vínið sé skemmt eða gallað, eða einfaldlega svo slæmt að það ætti ekki að vera í hillum Vínbúðanna (sem betur fer smakkaði ég ekkert slíkt vín á árinu).  Skipting einkunna var eftirfarandi:

 • 6 vín fengu 5 stjörnur
 • 15 vín fengu 4,5 stjörnur
 • 57 vín fengu 4 stjörnur
 • 45 vín fengu 3,5 stjörnur
 • 15 vín fengu 3 stjörnur.

Það var nokkuð erfitt að velja vín ársins að þessu sinni og nokkur vín sem komu sterklega til greina.  Ég fjallaði um rósavín í byrjun sumars, og þar var stjörnuvínið Miraval eftirminnilegt – líklega besta rósavín sem ég hef smakkað, fékk 4,5 stjörnur – en einnig Baron de Ley Rosado, sem fékk 4 stjörnur og kostar ekki nema 1.899 krónur.  Ég smakkaði því miður ekkert „stórt“ hvítvín á árinu og ekkert þeirra fékk meira en 4 stjörnur.  Weingut Frank Riesling 2015 (4 stjörnur, kostar 2.098 krónur) og La Chablisienne La Sereine Chablis 2012 (4 stjörnur, kostar 2.799 krónur) stóðu þó upp úr. Það var hins vegar erfiðast að gera upp á milli rauðvínanna. Fimm stjörnu vínin voru öll rauð og flest í dýrari kantinum, en tvö þeirra kosta þó undir 5.000 krónum –  Perelada Finca La Garrica 2011 (4.390 kr) og Catena Alta Malbec 2013 (4.498 krónur). Það voru líka fjögur rauðvín (2 voru sama tegund en sitt hvor árgangurinn) sem fá 4,5 stjörnur og kosta undir 3.000 krónum. Þessi vín eru Perelada 5 Fincas Reserva 2011 (2.875 krónur), Montes Alpha Cabernet Sauvignon 2012 (2.999 krónur), Lapostolle Cuvee Alexandre Cabernet Sauvignon 2010 (2.998 kr) og svo 2013-árgangur sama víns (2.998 kr).
Í sumar tók ég fyrir freyðivín í Vínbúðunum og í lok árs tók ég svo umfjöllun um kampavín.  Það verður að segjast að það er talsverður gæðamunur á þessum vínum og verðmunurinn oft réttlætanlegur (þó ekki alltaf).  Af freyðivínum skara Mont Marcal Cava (1.999 krónur) og Perelada Brut Cava (2.059 krónur) fram úr hinum og fá bæði 4 stjörnur.  Kampavínin fá hins vegar öll 4 stjörnur eða meira og þar eru eftirminnilegust Charles Ellner (4 stjörnur, kostar 4.297 krónur) og Moët & Chandon Nectar Imperial (fær 4,5 stjörnur en kostar 7.290 krónur).
Fyrir jólin hélt ég svo léttan leik á Facebook-síðu Vínsíðunnar þar sem vinningshafinn fékk í verðlaun vín sem hæfði jólasteikinni.  Brynja Guðrún Eiríksdóttir fékk flösku af Cune Reserva 2011 til að drekka með Wellington grænmetisætunnar og nautasteik, von að það hafi bragðast vel saman.  Þessi flaska kom reyndar sterklega til greina við valið á víni ársins þar til ég áttaði mig á því að ég var ekki búinn að birta umsögn um vínið og því kom það ekki til greina – verð að birta umsögn um vínið sem fyrst (kannski verður það fyrir valinu næst?).
Vín ársins 2016 hlýtur þá nafnbót meðal annars fyrir það sem kalla má vá-faktorinn (fleiri víngagnrýnendur hafa notað þennan þátt til að gera upp á milli vína).  Vá-faktor þess víns er sá að vínið er lífrænt ræktað, og því að lífrænt ræktuð vín séu orðin jafn góð og raun ber vitni, ber að fagna og vona fleiri lífrænt ræktuð vín í sama gæðiflokki standi okkur til boða á næstunni.  Vín ársins 2016 er Lapostolle Cuvée Alexandre Cabernet Sauvignon 2013. Umsögn um vínið var birt 30. október og er svohljóðandi: „…er dökkrúbínrautt á lit, með góða dýpt, unglegt með fallega tauma.  Í nefinu eru plómur, lakkrís, leður, amerísk eik, pipar og vanilla.  Í munni eru góð tannín, slatti af sýru, lakkrís og leður ásamt eik og pipar í eftirbragðinu. Hentar vel með lambi og nautakjöti.  Frábær kaup (2.998 kr).“

Vinir á Facebook