Gott hvítvín frá Austurríki

Þrúgan Grüner Veltliner hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, en því miður er allt of lítið framboð hérlendis af vínum úr þessari fínu þrúgu.  Þrúgan er algengust í mið-Evrópu, einkum í Austurríki (þar er hún um þriðjungur af vínframleiðslu landsins), Tékklandi og Slóvakíu, en nokkrir framleiðendur í N-Ameríku og Ástralíu hafa einnig prófað að rækta þessu þrúgu og hún virðist einnig ætla að pluma sig ágætlega í þessum löndum.  Í Austurríki nýtur hún sín vel á bökkum Dónár, þar sem hún vex í snarbröttum hlíðum meðfram ánni, þar sem jarðvegur er mjög af skornum skammti, og útkoman verður steinefnaríkt og snarpt vín sem getur elst vel og fær þá í sig hunangskenndan keim.  Bestu vínin standast fyllilega samkeppni við toppvín úr Chardonnay frá Búrgúndí og Kaliforníu.
Weingut Frank Gruner VeltlinerWeingut Frank Weinviertel DAC Grüner Veltliner 2015 kemur frá héraðinu Weinviertel í norðausturhluta Austurríkis.  Það er ljósgult á lit, með angan af sólberjarunnum (kattahland), greipaldin og steinefnum.  Í munni er sítróna, hvítur pipar, frískleg sýra og örlitlir apríkósutónar í eftirbragðinu.  Góð kaup (1.999 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook