Rósavín stjarnanna

Í Provence í Frakklandi eiga ofurstjörnurnar Brad Pitt og Angelina Jolie vínbúgarð þar sem þau framleiða vín í samvinnu við Perrin-fjölskylduna, sem hefur lengi staðið í fremstu röð víngerðar í Frakklandi.  Undir merkjum Miraval eru framleidd 3 vín – 2 hvítvín og eitt rósavín.  Rósavínið er gert úr þrúgunum Cinsault, Grenache, Rolle (einnig nefnd Vermentino en gengur líka undir fleiri nöfnum víðs vegar í kringum Miðjarðarhafið) og Syrah.  Fyrstu þrjár þrúgurnar eru pressaðar og safinn síaður frá og gerjaður, en Syrah er svo bætt út í eftir gerjun með s.k. „saignee“ aðferð, þ.e. hluti safans sem er í gerjun er tekinn til hliðar en afgangurinn látinn liggja lengur á hýði og stilkum við gerjunina.  Þessi hluti sem tekinn er frá er ljósari og ekki jafn bragðmikill og sá hluti sem liggur lengur með hýðinu, og er yfirleitt notaður í gerð rósavína.  Gerjun rósavínsins fer að mestu fram í stáltönkum en lítill hluti liggur í tunnum og þaðan kemur smá eikarkeimur í vínið, sem gefur því meiri karakter en maður sér almennt í rósavínum (að mínu mati).
Miraval Cotes de Provence Rose 2014Miraval Cotes de Provence 2014 er laxableikt og fallegt vín.  Jarðarber, rauð epli, sítrus og vínberjasteinn í nefinu, gott jafnvægi.  Í munninn koma jarðarber, ferskjur og smá greipaldin, vottar aðeins fyrir eik.  Góð sýra og fylling, gott jafnvægi og þægilegt eftirbragðið endist ágætlega. Dýrasta rósavínið í vínbúðunum en án efa eitt það besta – mjög góð kaup (2.945 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook