Rósavínssumarið að byrja?

Í fyrra smakkaði ég nokkur rósavín og reyndi að vekja athygli lesenda á þessum ágætu vínum, sem henta svo einstaklega vel að sumarlagi, sérstaklega þegar vel viðrar – sjá nánar hér.  Ég veit ekki hvort lesendur hafi tekið sérstaklega við sér í kjölfar þessa, en einhverjir hafa þó gert það því Vínbúðin er með sérstaka rósavínsumfjöllun á vef sínum í maí og júní.  Gissur Kristinsson fjallar þar um rósavín og bendir á að rósavínssala hafi jafnt og þétt farið minnkandi undanfarin ár.  Rósavín hafa ekki verið nema örfá prósent af heildarvínsölu á Íslandi, en til samanburðar má nefna að þriðja hver léttvínsflaska sem seld er í Frakklandi er rósavín!  Nærri tveir þriðju alls rósavíns sem selt er á Íslandi kemur frá Bandaríkjunum, nánar til tekið frá vínrisanum Gallo (Carlo Rossi, Gallo og Barefoot-vínin).  Næst stærsti hlutinn kemur frá Ítaliu (Riunite Lambrusco) og svo Portúgal (þarf víst varla að taka fram að Mateus kemur þaðan).

Undanfarna daga hef ég fjallað aðeins um rósavín til viðbótar við þau sem ég smakkaði í fyrra, og mitt mat er það að íslenskir neytendur eru ekki að kaupa bestu vínin á markaðnum, en minn smekkur gæti auðvitað verið öðruvísi…  Að mínu mati eru þrjú rósavín sem standa upp úr (myndi kannski ekki segja að þau beri af, en eru aðeins betri en hin) en í heildina litið eru þetta vel frambærileg rósavín sem okkur standa til boða, og vil ég hvetja sem flesta til að prófa rósavín næst þegar við lendum í bongóblíðu, líkt og þeirri sem lék við okkur fyrir sunnan um síðustu helgi.  Þau vín sem mér finnst standa upp úr eru Gassier Coteaux d’Aix-En-Provence, Muga Rosado 2015 og svo vínið sem hér er fjallað um:

Baron de Ley RosadoBaron de Ley Rioja Rosado 2015 er föl-laxableikt, með angan af jarðarberjum, hindberjum og ferskjum.  Í munni koma jarðarberin og ferskjurnar betur fram með daufum hnetukeim í eftirbragðinu.  Góð kaup (1.899 kr) – hentar vel með sushi, skelfiski, fiski, salati og sem fordrykkur.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook