Reyfarakaup

Flestir vínunnendur hugsa eflaust eins og ég, og reyna að finna bestu mögulegu kaupin hverju sinni – vín sem manni líkar vel við og er á góðu verði.  Mér fannst ég heldur betur hafa fundið lítinn gimstein þegar ég smakkaði þetta vín frá Valdepenas-héraði í hjarta Spánar. Valdepenas er á miðjum Spáni og tilheyrir Castile-La Mancha.  Vínin þaðan hafa sjaldan talist til stórvirkja í spænskri víngerð, en líkt og mörg önnur héruð á Spáni þá hafa vínin þaðan tekið miklum framförum undanfarin ár. Einn frægasti sonur þessa héraðs er án efa Don Kíkóti, sögupersóna Cervantes, sem flestir hafa líklega heyrt um. Bærinn Valdepenas er líka þekktur fyrir það að árið 1808 börðust þorpsbúar (menn, konur og börn) við her Napóleons og tókst að tefja mjög för hans yfir þennan hluta Spánar og er sú orrusta talin hafa átt stóran þátt í ósigri Napóleóns á Spáni (wikipedia lumar á ýmsum merkilegum upplýsingum). Senorio de los Llanos Crianza 2010
Senorio de los Llanos Valdepenas Crianza 2010 er dökk-rúbínrautt, kominn smá þroski í vínið, ágæt dýpt.  Kirsuber, jarðarber, amerísk eik, kryddjurtir, leður og tóbak.  Stöm tannín, hæfileg sýra, gott jafnvægi en skortir aðeins upp á fyllinguna.  Rauð ber og smá eik í góðu eftirbragðinu. Rúsínan í pylsuendanum er sú að þetta vín kostar ekki nema 1.599 krónur sem eru reyfarakaup!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook