Baron de Ley Gran Reserva 2009

2009-árgangurinn var mjög góður á Spáni, þar á meðal í Rioja-héraði.  Bæði Wine Spectator og Decanter gáfu árganginum ágæta einkunn, kannski ekki jafn góða og 2004, 2005 og 2010 sem voru allt framúrskarandi góð ár, en engu að síður mjög gott ár.  Einn traustasti framleiðandinn í Rioja er Baron de Ley – ég held ég geti sagt að ég hafi verið mjög ánægður með hvert einasta vín sem ég hef smakkað frá þeim undanfarin ár.  Vínið sem hér er fjallað um er engin undantekning. En fyrst nokkur orð um vín í Rioja.

Gæðaflokkun vína í Rioja
Gæðaflokkun vína í Rioja – myndin er fengin á www.winefolly.com

Í Rioja gilda ákveðnar reglur um vín og geymslu þeirra.  Lægsti gæðaflokkurinn kallast einfaldlega Rioja.  Vínin hafa að jafnaði verið geymd í 1-2 ár áður en þau fara í sölu, líklega lengst af í flösku og hafa því lítinn eikarkeim.  Crianza þurfa að hafa verið a.m.k. 1 ár á eikartunnum og 1 ár í flöskunni áður en heimilt er að setja þau í sölu.  Reserva þurfa að vera a.m.k. 1 ár á eikartunnu og 2 ár í flösku áður en þau má selja. Gran Reserva þurfa hins vegar að vera minnst 2 ár á eikartunnu og 3 ár í flösku áður en þau mega fara í sölu.  Eftir því sem vínin eru lengur á tunnu eykst eikarkeimurinn, og eftir því sem þau er geymd lengur eykst þroski þeirra þegar þau eru loks orðin tilbúin til sölu.  Eftir því sem þau eru geymd lengur hækka þau líka í verði, og almennt eru Gran Reserva dýrustu vínin.

Baron de Ley Gran ReservaBaron de Ley Gran Reserva 2009 er (að sjálfsögðu) gert úr Tempranillo og fylgir reglunni um tvö ár á tunnum (helmingurinn amerísk eik, helmingurinn frönsk eik) og svo þrjú ár á flösku.  Það er fallega rúbinrautt, þroskinn kominn af stað, fallegir taumar á glasinu.  Í nefinu finnur maður eikartóna, plómur, tóbak, pipar, balsamico og kirsuber. Í munni eru tannínin farin að mýkjast, fyllingin er góð og vínið er í góðu jafnvægi.  Þægilegir súkkulaðitónar í eftirbragðinu.  Virkilega gott vín sem hentar vel með nauti og lambi.  Góð kaup (3.798 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook