Gómsæt svínarif!

Eins og oft hefur komið fram hér á Vínsíðunni þá er ég ákaflega hrifinn af svínarifjum og hef gaman af að elda þau.  Í gær litum við inn í kjötbúðina á Grensásvegi og fórum þaðan út með baby back svínarif.  Veðrið var ágætt og því tilvalið að grilla rifin.  Ég hafði þó ekki alveg tíma til að standa við grillið í 2 tíma og notaði því næst bestu aðferðina.  Fyrst voru rifin krydduð með einfaldri kryddblöndu sem er náskyld uppskrift frá Hrefnu Sætran í bókinni Grillréttir Hagkaups (ég hef einhvern veginn aldrei fellt mig við þessa beygingu og vil tala um Hagkaup í fleirtölu, eins og gert var þegar Hagkaup opnuðu, en það er önnur saga):

  • 1 msk salt
  • 1 msk paprika (Hrefna notar reykta papriku, en ég átti hana ekki til)
  • 1 tsk steyttur svartur pipar
  • t tsk steyttur kóríander
  • 1 tsk cayennepipar
  • 1 msk púðursykur

Því næst voru rifin sett í ofnskúffu, skúffunni lokað vel með álpappír og síðan sett í 150 gráðu heitan ofn í 2 klst.  Að lokum voru rifin sett á heitt grillið, og grillsósa sett á í lokin.  Með þessari eldunaraðferð verða rifin mjög safrík og gómsæt.  Það var ekkert vín opnað að þessu sinni, því ég var á bakvakt.  Annars hefði verið tilvalið að opna spænskt crianza, t.d. frá Beronia.

Vinir á Facebook