Glæsileg vínkynning

Nýlega var haldin glæsileg vínkynning í Perlunni á vegum Bakkusar og fimm franskra vínframleiðenda.  Kynningin var vel sótt og mættu vel á þriðja hundrað manns til að kynna sér þau vín sem þar voru á boðstólum.

Laroche bauð upp á hvítvín frá Chablis, allt frá Laroche Chardonnay í 3 lítra kassa til Laroche Chablis Vaudevey Premier Cru 2012.  Sjálfur var ég hrifnastur af Laroche Chablis Saint Martin 2013, sem var frísklegt með sítrus- og blómakeim, í góðu jafnvægi.

Ogier bauð upp á rauðvín frá Rhone, bæði Cotes du Rhone og Chateauneuf  du Pape.  Kassavínið Ogier Cotes du Rhone La Romesse féll í góðan jarðveg, sem og Ogier Chateauneuf du Pape Heritage, en ég var auðvitað hrifnastur af Ogier Clos de L’Oratoire des Papes Chateauneuf du Pape 2012, sem er eitt af mínum uppáhaldsvínum.

Antoine Moueix bauð upp á rauðvín frá Bordeaux, allt frá Chateau Grand Montet 2013 (kostar ekki nema 1.999 kr, sem er einstaklega gott verð fyrir rauðvín frá Bordeaux) til Chateau Saint-Jacques 2012 og Chateau Cabet Guillier Saint Emilion Grand Cru 2011.  Bestu kaupin eru þó líklega í Chateau Hanteillan Haut-Medoc 2011, sem kostar ekki nema 2.666 krónur og eru mjög góð kaup að mínu viti.

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær gott rósavín, en Cazes bauð upp á Coteaux D’Aix En Provence (2.199 kr), sem var mjúkt og þægilegt.  Emmanuel Cazes, sem kynnti vín fyrirtækisins, sagði mér að í Frakklandi sé mjög mikið drukkið af rósavíni, sem er eitt algengasta borðvínið þar í landi, og um þriðjungur af léttvínssölunni í Frakklandi.  Þeir buðu líka upp á ágætt rauðvín, Cazes Hommage (2.497 kr) sem var alveg prýðilegt.

JeanJean bauð upp á eitt vín, Jeanjean Mas De Lunés Grés de Montpellier Languedoc 2011, en það var tvímælalaust sigurvegari kvöldins og kláraðist fljótt.  Robert Parker gefur þessu víni 90 punkta og það á þá einkunn fyllilega skilið.  Þetta vín er ekki enn komið í sölu, en félagarnir í Bakkus segja mér að þetta vín sé væntanlegt í sumar og verði líklega selt á u.þ.b. 2.500 krónur.  Ég býst fastlega við að á því verði muni það renna út eins og heitar lummur.

Bestu þakkir til Bakkusar og hinna frönsku framleiðenda fyrir að standa að þessari glæsilegu kynningu.

Vinir á Facebook