Banfi Cum Laude

CB_Cum_Laude1-134x450Cum Laude frá Castello Banfi er eitt af hinum svo kölluðu Super-Toscana vínum, þ.e.a.s. gæðavínum frá Toscana sem ekki fylgja hefðbundnum reglum um víngerð í héraðinu.  Lengi vel voru þessu vín flokkuð sem einföld borðvín en eftir að vinsældir þeirra jukust sættust menn á að þessi vín fengju flokkunina Toscana IGT.  Í stuttu máli sagt má segja að super-Toscana eru vín sem innihalda ýmsar aðrar þrúgur en Sangiovese, en það er eina þrúgan sem leyfð er í rauðvínum frá Toscana sem kennd eru við upprunahérað, s.s. Chianti, Chianti Classico og Brunello di Montalcino.
Cum Laude er blanda Syrah, Sangiovese, Merlot og Cabernet Sauvignon og kemur frá Montalcino.  Þrúgurnar eru gerjaðar hver í sinu lagi og látnar liggja 6-8 mánuði á tunnum úr franskri eik, og síðan er endanlega blandan búin til og látin liggja í aðra 6-8 mánuði áður en víninu er tappað á flöskur.  Vínið er ekki síað og því má búast við einhverju botnfalli í flöskunni.  Vínið er að lokum látið liggja 6-8 mánuði í flöskunni áður en það er sett á markað.
Banfi Cum Laude 2010 er dökkrautt, með góða dýpt og örlar aðeins fyrir þroska.  Í nefinu finnur maður plómur, sólber, smá lakkrís og tóbak.  Vínið hefur góða fyllingu, stinn tannín sem þurfa smá tíma til viðbótar að mýkjast betur. Tóbakið kemur aðeins betur fram í eftirbragðinu, sem annars heldur sér ágætlega.  Einkunn: 8,5.  Wine Spectator gefur þessu víni 89 stig.  Kostar 3.597 í vínbúðum ÁTVR.

Vinir á Facebook