Spænskt meistaraverk – loksins!

Árið 2009 skaust lítt þekktur spænskur vínframleiðandi, Bodegas Numanthia, upp á stjörnuhimininn þegar „litla“ vínið hans lenti í 2. sæti á topp-100 lista Wine Spectator.  Numanthia er staðsett í norðvestur-hluta Spánar, svæði sem kallast Toro og er vestast í Castilla y Leon.  Þar vex Tempranillo, sem þeir reyndar kalla Tinta de Toro, sem er sjaldgæf að því leyti að hún vex án þess að þurfi að græða á hana rætur sem þola phylloxera-lúsina.  Þetta er líka harðgerð tegund, og það verður hún að vera, því þarna er ákaflega þurrt, rignir aðeins um 350-400 mm á ári (á Íslandi er meðalúrkoma í júlí í kringum 80 mm).  Leirkenndur jarðvegurinn bindur þó vel það litla rigningarvatn sem þarna fellur og það gerir það að verkum að vínviðurinn þrífst við þessar erfiðu aðstæður.  Toro hlaut viðurkenningu sem eigið vínræktarsvæði (Denominacion de Origen) árið 1987.  Alls eru þar um 8.000 hektarar af vínviði og um 5.500 geta flokkast sem D.O. Toro.  Um héraðið rennur áin Duero, sem á upptök sín í Ribera del Duero héraði og rennur síðan til vesturs.  Þegar hún fer yfir landamæri Portúgals heitir hún Duoro og rennur um samnefndan dal, sem er mikilvægasta vínræktarhérað Portúgals.

Vínið sem hér um ræðir heitir Termes, og það var 2005 árgangurinn sem hlaut heil 96 stig, sem er ansi gott fyrir vín sem kostaði þá $27.  Það hefur þó ekki hækkað mikið síðan þá, þrátt fyrir velgengnina.  2009-árgangurinn kostaði $30 í USA og í dag áskotnuðust mér 2 flöskur af 2010-árgangnum fyrir 182 SEK (rúmar 3.000 krónur á gengi dagsins).  Þessi árgangur er að fá aðeins betri dóma en 2009 (sem þó hlaut fína dóma) og ég bíð spenntur eftir að fá að smakka hann.  Ég náði að smakka 2007-árganginn þegar ég var staddur í San Diego í Kaliforníu í fyrra og varð ekki fyrir vonbrigðum með hann.

Termes er gert úr Tinta de Toro, og vínviðurinn er a.m.k. 50 ára gamall (elsti hlutinn er yfir 100 ára).  Vínið er látið liggja um 20 mánaði á tunnum úr nýrri, franskri eik áður en það er sett á flöskur.  Það er ekki síað og því viðbúið að botnfall geti verið í meira lagi í hverri flösku.  Ég bíð spenntur eftir að prófa – líklega þarf ég svo að panta meira af þessu…

Vinir á Facebook