Robert Parker dásamar Catena Zapata

catena-mb-2008-labelVínskríbentinn Robert Parker er gríðarlega áhrifamikill í vínheiminum, og álit hans geta haft mikla þýðingu fyrir framgang nýrra (og eldri) vína.  Nýlega fjallaði hann um Catena Zapata í tímariti sínu The Wine Advocate, og er óhætt að setja að dómarnir séu góðir.  Hann fjallar ítarlega um Catena Zapata, sem hafa verið frumherjar í víngerð í Argentínu um áratuga skeið, og vínin eru almennt að fá framúrskarandi góða dóma.  Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec frá Catena Zapta og Chardonnay hefur líka vakið hrifningu mína.  Þessi tvö vín eru fáanleg í vínbúðum ÁTVR og kosta tæpar 3.000 krónur, og verða það að teljast góð kaup.  Vínin, einkum Malbec, hafa nær undantekningalaust verið að fá 90+ hjá bæði Robert Parker og Wine Spectator, og ég hef líka valið Malbec frá Catena Zapata sem vín ársins á Vínsíðunni.
Zapata hafa lengi verið í framlínu Argentínskrar víngerðar og þeim er m.a. einkaður heiðurinn af framgangi Malbec á undanförnum árum, en þeir komust að því að galdurinn að gera góð vín úr Malbec er að meðhöndla hann líkt og væri Pinot Noir en ekki Cabernet, eins og flestir ef ekki allir víngerðarmenn í Argentínu höfðu gert fram til þessa.  Einnig var vínið látið þroskast á stórum tunnum (500 lítra í stað 225) og allt hjálpaðist þetta að til að gera Malbec að nýjustu stjörnunni í vínheiminum.  Zapata framleiðir líka Cabernet Sauvignon í sama verðflokki og þau vín sem eru fáanleg hér, og vonandi tekst umboðsaðilum Zapata á Íslandi að fá þessi vín í hillur vínbúðanna, því þau hafa einnig verið að gera það gott og fá háar einkunnir hjá víngagnrýnendum.

Vinir á Facebook