Árshátíð Vínklúbbsins

IMG_1677
Vínklúbburinn hélt nýlega hina legendarísku árshátíð sína.  Haldið var á Hótel Hellissand þar sem Jón Kristinn tók vel á móti okkur.  Sumir komu kvöldið fyrir árshátíðina og við héldum smá upphitun – fengum frábæra humarpizzu og drukkum góð vín.  Ég tók með mér Altano Douro Quinta do Ataide Reserva 2009 (sjá aðra færslu) sem kom verulega á óvart og féll í góðan jarðveg viðstaddra.  Því miður láðist mér að skrá hjá mér hin vínin sem prófuð voru þetta kvöld.
Sjálf árshátíðin tókst auðvitað gríðarlega vel.  Jón Kristinn lagði sig allan fram  í matreiðslunni og brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn.   Í fordrykk bauð Jón upp á Bollinger Extra Brut Champagne R. D. 1995. Þetta var alveg frábært kampavín, með nokkuð áberandi eplabragði, engifer og hnetum, nokkuð flókið með löngu og góðu eftirbragði. Í forrétt var foie gras á brioche-brauði með sósu sem m.a. innihélt blóðappelsínur og fíkjur, og ég verð að segja að annað eins lostæti hef ég ekki komist í lengi.  Með þessu bauð Jón upp á Chateau Bastor Lamontagne Sauternes 1990, sætvín með angan af apríkósum og hnetum.  Það var aðeins komið á seinni helminginn en engu að síður virkilega gott vín.
IMG_1679
Því næst var borinn fram djúpsteiktur humar í orly og féll hann ekki síður í góðan jarðveg viðstaddra.  Menn voru með eigin hvítvín og rauðvín með, og við Guðrún höfðum tekið með J-L Chave Selection Hermitage Blanche 2007, frá norðurhluta Rónardals í Frakklandi.  Vínið er mjög smjörkennt, með mangó og perum, dálítilli eik.  Mikil og góð fylling, gott jafnvægi og langt eftirbragð.  Féll vel með humrinum en hefði kannski passað jafn vel með gæsalifrinni? Þetta var seinni flaskan mín af tveimur sem ég keypti fyrir 3-4 árum í Svíþjóð.  Þá keypti ég slatta af Rónarvínum en því miður eru þau nú öll uppurin hjá mér…
 
IMG_1683
Aðalréttur kvöldsins var í smá 2007-stíl – nautalund frá Mýranauti í Borgarfirði,marineruð með trufflum, ásamt Jerúsalem ætiþistilmauki og fleira gúmelaði.  Nautið var alveg meiriháttar, en þetta var í fyrsta skipti sem ég smakka nautakjöt sem hefur verið matreitt á þennan hátt og ég var ákaflega ánægður með það.  Með nautinu drukkum við Chateau Tour Pibran 2009.  Vínið var enn í yngri kantinum en þó komið með nægilegan þroska til að passa við nautið.  Sólbering og plóman voru nokkuð áberandi ásamt frönsku eikinni, en jafnvægið var í fínu lagi og fyllingin góð.  Vínið kostar rétt tæpar 5.000 krónur og er vel þess virði. Hér til hliðar má sjá þau rauðvín sem menn tóku með sér og drukku með aðalréttinum, og eins og sjá má var engu til sparað!
IMG_1678
Rúsínan í pylsuendanum var svo súkkulaði kaka og eplakaka með heimalöguðum sorbet og ís.  Með þessu bauð Jón upp á Chateau d’Yquem Sauternes 1994!  Frábært sætvín með hunangi, grænum eplum og þurrkuðum apríkósum og alveg endalausu eftirbragði – meiri háttar!
Frábært kvöld, geggjaður matur og vínin ekki síðri – bestu þakkir, Jón!

Vinir á Facebook