Nokkur góð vín með grillinu

20130528-094057.jpgUm helgina komu Óli og Selma í mat til okkar (ekki formlegt matarboð, heldur ákveðið með mjög stuttum fyrirvara). Óli var búinn að marinera lambaframpart og ég skaust því út í búð og keypti meiri frampart sem ég kryddaði með grískri kryddblöndu.  Með þessu drukkum við Clos de L’Oratoire des Papes Chateauneuf-du-Pape 2010, alveg hreint dásamlegt C-d-Pape sem er rétt að lifna við og hefði eflaust gott af góðri geymslu áður en það toppar (a.m.k. 5 ár til viðbótar). Ég valdi þetta sem vín ársins í fyrra og iðrast þess ekki!  Einkunn: 9,0. Vínið passaði vel við grillað lambakjötið, með sólberjum, plómum og smá súkkulaði.  Vínið fær 92 punkta hjá Wine Spectator og kostar 4.499 krónur í vínbúðunum.
20130528-094124.jpg
Óli er vel tengdur inn í áfengisinnflytjandann Mekka, sem m.a. flytur inn vínin frá Concha y Toro, og það kom mér því á óvart að hann hafði aldrei prófað Terrunyo Block 17 Colchagua Valley Carmenere 2009.  Það vín er sömuleiðis rétt að taka við sér og á eflaust eftir að batna talsvert á næstu árum.  Góður plómu- og kirsuberjailmur, krydd og blómakeimur.  Einkunn: 8,5.  Þetta vín fær 91 punkt hjá Wine Spectator og kostar 4.499 krónur í vínbúðunum.
20130528-094107.jpg
Á síðasta vínklúbbsfundi létu meðlimir vel af Peter Lehmann Clancy’s Barossa.  Ég prófaði þetta vín fyrir nokkrum árum og var þá mjög hrifinn af því.  Það hefur verið illfáanlegt í Svíþjóð og því gleðiefni fyrir mig að það skuli fást hér á Íslandi.  Ég keypti 2009-árganginn (2.898 kr) og bauð upp á með Eurovision-grillinu (lambalæri með bökuðum kartöflum).  Þetta er blanda Shiraz, Cabernet og Merlot með plómur, pipar og krydd í nefinu, góð fylling og jafnvægi. Einkunn: 8,5

Vinir á Facebook