Nýársveislan

20130101-202613.jpg
Við fjölskyldan fögnuðum áramótunum með fjölskyldu Guðrúnar, þar sem boðið var upp á kalkúnabringur að hætti húsbóndans á Brúnastöðum. Við Guðrún héldum svo upp á Nýársdaginn með dýrindis þriggja rétta máltíð. Í forrétt fengum við okkur Foie gras og með slíkum kræsingum hæfir aðeins að drekka ósvikið kampavín. Við fengum okkur Taittinger Brut Champagne La Francise (NV), góð sýra, eik og ristað brauð, græn epli, sítrónur og sjávarsalt. Fór vel með Foie Gras. Einkunn: 8,5.
20130101-202627.jpgAðalrétturinn var nautalund, elduð á hefðbundinn hátt og borin fram með smjörsteiktum kartöflum, grænum sperglum og púrtvínssósu. Með þessu drukkum við Chateau Cantenac-Brown Margaux BriO 2008. Unglegt vín með lítinn þroska, sæmileg dýpt. Plómur og sólber áberandi í fremur einfaldri lykt, vottar aðeins fyrir fjólum. Í munni góð sýra en skortir kannski aðeins tannín á móti. Smá súkkulaði í eftirbragðinu. Einkunn: 8,5

Vinir á Facebook