Áramótauppgjör Vínsíðunnar

Þá er enn einu starfsári Vínsíðunnar að ljúka, og mér reiknast til að þetta hafi verið 13. starfsárið (eða þar um bil), því fyrsta færslan fór á netið sumarið 1999.  Í fyrstu var þetta ósköp einfaldur vefur þar sem þurfti að skrifa hverja færslu í HTML.  Síðar bjó ég til einfaldan bloggvef sem ég notaði í nokkur ár, þar til ég skipti yfir í kerfi sem heitir Nuke.  Það reyndist ekki mjög skynsamlegt, því það kerfi var (og er) vinsælt fórnarlamp tölvuþrjóta.  Þegar ég varð fyrir árás númer 3 gafst ég upp og skipti yfir í WordPress sem hefur reynst öruggt og auðvelt í notkun.  Færslurnar á Vínsíðunni hafa verið mismargar milli ára og ég verð að viðurkenna að þær hafa ekki verið mjög margar í ár, en þetta telst vera færsla númer 31 á árinu.  Ég vil kenna því um að ég flutti búferlum frá Svíþjóð heim til Íslands og því ákaflega lítið skrifað í sumar.  Líkt og oft áður lofa ég nú bót og betrun og meiri virkni Vínsíðunnar á árinu 2013!
Heimsóknir á Vínsíðuna hafa verið um 7.500 í ár sem er aðeins minna en undanfarin ár þegar þær hafa verið 8.500 – 10.000 á ári. Það lifnaði þó aðeins yfir síðunni á síðustu dögum ársins og við það jókst fjöldi heimsókna verulega.  Flestar urðu þær 112 talsins þann 29. desember (lesendur væntanlega að spá í freyðivín og kampavín fyrir áramótin).
37 vín hlutu umsögn á árinu, kannski aðeins færri en undanfarin ár en það gæti skýrst af flutningum. Vínin sem hlutu umsögn þetta árið voru mjög fjölbreytileg, allt frá óspennandi vínum á borð við Snoqualmie Merlot og Motörhead Shiraz til stórkostlegra vína á borð við Wynn´s Michael Shiraz 1998. Einnig var spennandi að komast í Masterclass í vínum frá Montes þar sem sjálfur Aurelio Montes kynnti vínin, og þar sem m.a. var boðið upp á fyrsta árganginn frá nýju vínræktarsvæði í Chile, Zapallar. Vínin þaðan eru að fá góða dóma (Sauvignon Blanc 2011 fær 90 punkta hjá Wine Spectator og Pinot Noir 2011 fær 89 punkta) og vonandi eigum eftir að fá að kynnast þessum vínum betur í framtíðinni.
Ég hef í mörg ár útnefnt Vín ársins úr þeim vínum sem ég hef prófað á árinu og þeim sið verður haldið áfram með útnefningu á Víni ársins á nýársdag.  Fylgist með!

Vinir á Facebook