Strákagrill

Undanfarnar vikur hef ég staðið í flutningum og því lítið farið fyrir vínsmökkun og matargerð. Búslóðin er komin í hús og verið er að snurfusa húsið aðeins áður en við flytjum svo inn. Ég er núna að taka smá vinnutörn í Falun (verð hér af og til í vetur) og notaði tækifærið þessa helgi til að heilsa upp á gömlu grannana okkar í Uppsala – Keizarann og fjölskyldu hans.
Það voru reyndar bara Keizarinn og Keizarinn jr. sem voru heima. Við ákváðum að hafa strákakvöld – þrír leikir í Bundesligunni, kaldur bjór í ísskápnum og karlmannleg nautasteik sett á grillið. Með þessu bárum við fram blómkálsmauk að hætti Björns Ferry (ólympíumeistari í skíðaskotfimi sem borðar aðeins s.k. steinaldarfæði, nokkurs konar LCHF-matur) og piparsósu. Kjötið fékk á sig vænan skammt af svörtum pipar og salti og svo grillað á funheitu grilli. Með þessu drukkum við Peter Lehmann Barossa Shiraz 2009 – unglegt vín með pipar, eik, og leður í nefinu en líka óvenjumikla kirsuberjaangan sem mér fannst reyndar ekki passa. Tannískt með góða sýru, kirsuberin koma líka aðeins fram í bragðinu. Vínið passi samt sem áður ágætlega með nautasteikinni! Einkunn: 7,0 (kirsuberin draga það aðeins niður).

Vinir á Facebook