Bandol og Barolo

Það er orðið nokkuð langt síðan ég skrifaði eitthvað hér á síðuna og það á sér ýmsar skýringar.  Ég læt mér nægja að segja að það eru flutningar fyrir dyrum því við erum að flytja heim til Íslands og því fylgir heilmikið stúss og því lítill tími til vínsmökkunar og skrifta!
Þessa vikuna er ég reyndar staddur í Falun, en hingað hef ég ekki komið síðan í nóvember.  Þegar ég er staddur í Falun hef ég oft lausan tíma og reyni þá að nota tækifærið og lauma inn einni færslu eða svo.  Í gærkvöldi þegar ég sat í lestinni fletti ég í gegnum nýjasta eintak Decanter.  Þar eru yfirleitt nokkuð skemmtilegir pistlar og ég les alltaf það sem Michael Broadbent skrifar.  Hann var áður yfirmaður vínsviðs hjá uppboðsfyrirtækinu Christie’s og er almennt talinn með fróðustu vínsérfræðingum samtímans (meira um hann síðar).  Það sem vakti þó mesta athygli mína var grein eftir Andrew Jefford, sem hlaut Louis Roederer-verðlaunin sem vínskríbent ársins 2011.  Pistill hans að þessu sinni fjallar um það hvernig smekkur okkar þegar kemur að vínum þróast með tímanum – við göngum í gegnum tímabil með Cabernet Sauvignon, Chardonnay og Pinot Noir, Syrah og Sauvignon Blanc.  Undanfarin ár hefur Andrew verið að eltast við Mourvedre, sem algengust er í ýmsum blöndum (Rónarvín, Languedoc, spænsk vín ýmis konar, að ekki sé minnst á GSM-blönduna).  Með tímanum hefur hann orðið þess fullviss að Bandol-héraðið í Provence í Frakklandi sé hjarta alheimsins þegar Moudvedre er annars vegar og gengur svo langt að halda því fram að frá Bandol komi þau frönsku vín sem helst sé hægt að líkja við Barolo.  Samanburðurinn þykur einhverjum kannski vera heldur langsóttur en þessi vín eiga þó ýmislegt sameiginlegt.  Það eru aðeins 250 kílómetrar (og Alparnir) á milli héraðanna, vínin eru tannísk og þurfa góðan tíma til að þroskast og opna sig almennilega fyrir neytandanum.  Ítalska vöðvatröllið er heimsfrægt – hið franska vel varðveitt leyndarmál þeirra sem til þekkja.
Hverjar eru þá stjörnurnar í Bandol? Pibarnon og Tempier eru nefnd til sögunnar en Jefford telur þó upp önnur vín sem hann segir engu síðri og nefnir þá fyrst La Bastide Blanche.  Ég varð auðvitað forvitinn, fannst ég kannast við það nafn og mikið rétt – það fæst í vínbúðunum hér fyrir aðeins 139 SEK.  Ég rölti mér því niður í vínbúð á leið heim frá vinnu og kippti með einni flösku af 2009-árgangnum.  Þetta vín er yfirleitt að fá 88-92 stig hjá Wine Spectator og því nokkuð ljóst að þar er hægt að gera góð kaup.
Vínið er mjög dökkt að sjá, með góða dýpt en er ennþó frekar unglegt að sjá.  Í nefið koma strax plómur, kirsuber, pipar og þægilegur sveppakeimur.  Í munni er það vel tannískt, góð sýra, þéttur berjakeimur og krydd sem haldast vel út í eftirbragðið sem er nokkuð langt.  Vínið er í góðu jafnvægi og á töluvert eftir.  Líklega rétt að geyma það í 2-3 ár til viðbótar áður en það fer að njóta sín að fullu en það er samt mjög gott í dag.  Einkunn: 8,5 – Góð Kaup!
Því miður er þetta vín ekki fáanlegt á Íslandi (og ég fæ í fljótu bragði ekki séð að nein Bandol-vín fáist þar) og því ekki svo vitlaust að kippa með nokkrum flöskum nú þegar ég flyt heim.

Vinir á Facebook