Af hverju er þetta ekki mest selda vínið í Ríkinu?

Í síðasta pistli fjallaði ég um mest seldu vínin í Ríkinu árið 2011. Ég hef ekki náð að smakka þessi vín sem seljast best, fyrir utan Moselland Riesling Kabinett, sem er mest selda kassahvítvínið, og ég skil svo sem að það seljist vel, svo auðmelt sem það er. Þegar kemur að rauðvíni í flöskum, sér í lagi frá Argentínu, þá skil ég ekki af hverju Amalaya er ekki mest selda rauðvínið! Hér er feiknagott vín á ferðinni – dökkt og fallegt að sjá, sólber, plómur og smá mynta í nefinu, sýran nokkuð skörp en engu að síður mjúkt vín í góðu jafnvægi, fín fylling og gott eftirbragð (sem mætti reyndar vera aðeins lengra). Skemmtileg blanda Malbec (sem er að verða ein heitasta þrúgan í dag), Cabernet Sauvignon, Syrah og Tannat. Einkunn: 8,0 – Góð kaup!

Vinir á Facebook