Rokkvín

Það hefur varla farið framhjá íslenskum vínunnendum að ÁTVR hefur neitað að selja vín sem kennt er við rokkhljómsveitina Motörhead.  Vínáhugamenn hafa hins vegar ekki verið framarlega í þessari umræðu, heldur hafa íslenskir netmiðlar birt viðtöl við íslenska rokkara sem kalla það mannréttindabrot að fá ekki að kaupa rauðvínið sitt.  Fjölmargir tónlistarmenn hafa í seinni tíð lagt nafn sitt við vín, t.d. AC/DC, KISS, og svo auðvitað Motörhead.  Aðrir vínframleiðendur hafa sjálfir (og líklega fengið leyfi hjá viðkomanda rétthafa) nefnt vín sín eftir tónlistarmönnum (Elvis the King) og/eða þekktum lögum (Pink Floyd Dark Side of the Moon Cabernet Sauvignon, The Rolling Stones Forty Licks Merlot 2007 o.s.frv.).
Rök ÁTVR fyrir því að hafna víninu eru að hljómsveitin Motörhead, sem vínið er nefnt eftir, kemur ekki nálægt framleiðslu þess sjálf, auk þess sem nafnið er talið skírskota til óheilbrigðra lifnaðarhátta. Þannig sé enska orðið ‚motorhead’ slanguryrði yfir amfetamínneytanda og textar sveitarinnar fjalli „iðulega um stríð, misnotkun valds, óábyrgt kynlíf og misnotkun vímuefna“.
Mér finnst þó meira máli skipta hvort vínið sé nógu gott til þess að það sé þess virði að kaupa það.  Nú vill svo heppilega til að þetta vín er til í vínbúðinni minni og því ekki um annað að ræða en að skella sér á flösku.  Ég fékk Keizarann til liðs við mig (hann er harður rokkari og hefur m.a. sungið í þungarokkshljómsveit) og við opnuðum eina flösku í gær.
Vínið er nokkuð ljóst miðað við ástralskan Shiraz, nokkuð unglegt að sjá.  Í nefinu er óvenjumikill berjakeimur, smá krydd og leður.  Í munni skortir nokkuð upp á fyllinguna, lítið um tannín en heldur ekkert sérstaklega mikil sýra.  Eftirbragðið ágætt en í styttra lagi.
Hver er svo niðurstaðan?  Flaskan kostar 119 sænskar krónur og mér finnst ég satt að segja fá heldur lítið fyrir þann pening.  Fyrir sama verð fæ ég Peter Lehmann The Barossa Shiraz (119 SEK/2599 ISK) eða Penfolds Shiraz Mourvedre Bin 2 og þar eru miklu betri vín á ferðinni. Á Íslandi er líka hægt að fá d’Arenberg The Footbolt Shiraz (2309 kr), Wyndham Bin 555 Shiraz (2599 kr) og Peter Lehmann the Futures Shiraz (2999 kr) sem öll eru betri kaup að mínu viti.
Ég keypti líka KISS Zin Fire (sem líkt og nafnið gefur til kynna er amerískur Zinfandel) en á eftir að prófa það…

Vinir á Facebook