Pipar, pipar

Fyrir jól fór ég í tvígang út að borða með vinnufélugunum, og í bæði skiptin fórum við á veitingastaðinn Peppar, Peppar hér í Uppsölum. Staður mun vera nokkuð vinsæll og hefur undanfarin 3 ár verið útnefndur veitingastaðir ársins af lesendum bæjarblaðsins í Uppsölum. Guðrún hefur tvívegis borðað þarna og látið vel af. Ég bar því nokkrar væntingar til staðarins og mér fannst staðurinn standa undir þeim.  Ég fékk reyndar sama mat og vín í bæði skiptin, en í seinna skiptið voru tveir aukaréttir (þ.e. við fengum fullan „avsmaksmeny“, þ.e. fjölréttamatseðil).  Fyrst fengum við laxaterrín, því næst graskers- og trufflusveppasúpu með andaconfite, þá smjörsteiktan vatnaviðni (gös á sænsku), hreindýrasteik og að lokum perur með After Eight-frauði (laxinn og vatnaviðninn fékk ég bara í seinna skiptið).

Með fiskinum og súpunni drukkum við Turkheim Alsace Riesling Reserva 2009, dæmigerður þurr riesling með apríkósum og hunangi, en með hreindýrinu drukkum við Moebius Tempranillo 2007 frá Argentínu, þægilegt matarvín með krydduðu berjabragði og ágætisfyllingu.  Bæði vínin fá 7,5 í einkunn hjá mér.
Ég tel óhætt að mæla með Peppar Peppar og hlakka til að koma þangað aftur.

Vinir á Facebook