Petalos 2009

Descendientes de J. Palacios Pétalos 2009Eitt af þeim vínum sem ég pantaði mér af topp-100 lista Wine Spectator er Descendientes de J. Palacios Bierzo Pétalos 2009 (93 punktar, 26. -sæti).  Vínið kemur frá héraðinu Bierzo á NV-Spáni, sem er tiltölulega nýtt vínræktarhérað.  Þar er þrúgan Mencia allsráðandi og Pétalos er einmitt gert úr þeirri þrúgu.  Vínið er dökkt, með góð dýpt, unglegt að sjá. Í nefið kemur áberandi berjakeimur sem er nokkuð kryddaður, milda eikartóna, hvítan pipar og smá leður.  Í munni er mikið berjabragð, mjúk tannín, góð sýra, þokkafullt eftirbragð. 
Við drukkum þetta vín með Boeuf Bourguignon sem ég gerði samkvæmt uppskrift Juliu Child.  Ég hef nú prófað nokkrar uppskriftir af þessum fræga rétti og er kominn á þá skoðun að sú besta er líklega mín eigin sem er n.k. bræðingur af uppskrift Juliu Child og Thomas Keller, sem rekur einn frægasta veitingastað Bandaríkjanna, The French Laundry.  Næst þegar ég geri Boeuf Bourguignone skal ég láta mína uppskrift fljóta með…

Vinir á Facebook