Brunello og Barolo

Ég var að fá í hús 3 flöskur af Campogiovanni Brunello di Montalcino 2006 – stórkostlegt vín sem Wine Spectator gefur 96 punkta, og það kostar aðeins 299 sænskar krónur. Vínið þarf helst smá tíma í viðbót til að toppa en mig dauðlangar samt að smakka – vonandi stenst ég freistinguna um helgina og bíð þangað til ég kem heim eftir Íslandsferðina (ég flýg til Íslands á sunnudaginn). Ég smellti mér líka á eintak af nýjasta Decanter, en þar er smá úttekt á Barolo 2006. Ég renndi aðeins yfir það sem til er í sænsku vínbúðunum og sá að eftirfarandi vín eru fáanleg og gætu verið góð kaup:

  • Andrea Oberto Vigneto Albarella Barolo 2006 – 399 SEK/fl. (92198), 18,7/20 stig
  • Andrea Oberto Barolo 2006 – 359 SEK/fl (71555), 17,5/20 stig
  • Andrea Oberto Rocche Barolo 2006 – 499 SEK /fl (90306), 17,5/20 stig
  • Ciabot Berton Roggeri Barolo 2006 – 189 SEK/fl (920962), 17,5/20 stig
  • Ello Grasso Gavarini Chiniera Barolo 2006 – 519 SEK/fl (92149), 17/20 stig
  • Luciano Sandrone Le Vigne Barolo 2006 – 759 SEK/fl (71065), 16,83/20 stig

Í vínbúðum ÁTVR fæst aðeins eitt Barolo 2006:

  • Villadoria Sori Lazzarito Barolo 2006 – 3.998 kr/fl, 16,5/20 stig

Það eru reyndar til einhver 2005 en það var langt í frá jafn góður árgangur og 2006. Á vef ÁTVR má líka sjá Pio Cesare Barolo Ornato 2004 á tæpar 10 þúsund krónur en þar er sko alvöru vín á ferðinni og alveg þess virði að splæsa í eina slíka!

Vinir á Facebook