Hitabylgjan heldur áfram…

Já, það er sko sannkölluð hitabylgja hérna og nánast skömm frá að segja að maður er að verða pínu þreyttur á því að það sé 26-30 stiga hiti á hverjum degi.  Pirringurinn felstu þó kannski helst í því að Theódór sefur ekki vel í þessum hita og ég er ekki enn kominn í sumarfrí!  Sumarfríinu verður reyndar að mestu leyti varið á Íslandi og því líklega best að njóta hitans meðan hann er hér.
Um síðustu helgi fengum við góða heimsókn – Gestur og Sonja komu í fyrsta skipti til okkar í Svíþjóð, en þau eru nýflutt til Stokkhólms frá Danmörku.  Þar sem þau búa í fjölbýlishúsi á Östermalm (fínt hverfi í Stokkhólmi) þá mega þau ekki grilla á svölunum hjá sér og því aldrei annað inni í myndinni en að bjóða þeim upp á grill.  Við erum nýbúin að kaupa fjórðungshluta af ungnauti og steikurnar voru einmitt orðnar passlega meyrar.  Eftir að hafa boðið þau velkomin með glasi af Leth Grüner Veltliner 2010 skelltum við Entrecote á grillið og með því drukkum við Tignanello 2006, eitt af mínum uppáhaldsvínum.  Dásamlegur keimur af sólberjum, leðri, kaffi og kryddum.  Mikil fylling, þétt tannín og laaaangt eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – bestu meðmæli!  Í eftirrétt fengum við okkur grillaða ávexti og ís, og með því drukkum við Jeanmaire kampavín.  Frábært kvöld sem var svo toppað með Camus XO koníaki og Tallisker vískí…

Vinir á Facebook